05.07.2010 16:10

Ótitlað


Stebbi Kristjáns fékk þessa flottu hryssu í sumar. Hryssan er sláandi lík föður sínum, honum Krák frá Blesastöðum en hann er að festa sig í sessi sem einn allra efnilegasti kynbótahesturinn hér á landi. Krákur á 3 afkvæmi dæmd og hafa þau öll farið í góð 1. verðlaun 4. vetra að aldri. Glæsileg byrjun.

Móðirin er 1. verðlaunahryssan Ör frá Síðu en hún er úr ræktun Viðars Jónssonar í Keflavík sem reynst hefur mörgum vel og er hún undan Ófeigssyninum Hrannari frá Kýrholti. Garpurinn Ófeigur frá Flugumýri kemur því fyrir báðum megin í þessari ungu hryssu.

05.07.2010 15:51

Skarði frá Flagveltu


Brimfaxafélagar eru duglegir í ræktuninni og hér er hann Skarði frá Flagveltu úr ræktun Péturs og Birtu. Þessi foli fer mjög fallega á öllum gangi og er undan Mjölni frá Hlemmiskeiði og Heru frá Bjalla.

Mjölnir er háttdæmdur Krákssonur og Hera er Óðsdóttir með 1. verðlaun fyrir hæfileika. Gaman er að því að Ófeig frá Flugumýri má finna á fjóra vegu í ættartré þessa hests. Ófeigur kemur tvisvar í gegnum dótturson sinn Óð frá Brún og síðan í gegnum son sinn Keili frá Miðsitju og dótturina Björk frá Götu

20.06.2010 16:40

Brimfaxi fæddur


Brimfaxi frá Stafholti er komin í heiminn. Á dögunum kom fyrsta folaldið í sumar úr ræktun þeirra Palla Jóa og Mundu í Staholti.
Um er að ræða leirljósan myndar hest sem var að sjálfsögðu skírður Brimfaxi. Folinn er undan gæðingunum Mídasi frá Kaldbak og Birtu frá Heiði. Brimfaxi á tvo eldri albræður þá Bjarma og Bjartmar sem hafa unnið sér það til frægðar að sigra folaldasýningarnar hjá hestamannafélaginu Mána sl. tvö ár.

Gaman væri ef hinn stæðilegi Brimfaxi skyldi halda áfram hefðinni sem bræður hans hafa skapað og sigra næstu folaldasýningu er haldin verður á Mánagrund

11.06.2010 15:47

Fornsögulegt nafn


Grímur Hrafnsson, er var yfirnemi á Vífilsstöðum, en meistarinn Jón Kjarvalarson, "sá gamli", var, eins og áður er sagt, orðinn hrumur af elli og kominn af fótum fram. Kolskeggur reið því ávalt á milli Vífilsstaða og Krýsavíkur. Hann hafði 12 gæðinga til reiðar, alla hvíta og báru allir faxanöfnin. Tveir hvítir hundar eltu hann jafnan. "Sá gamli" var brenndur inni á Vífilsstöðum, en "Kölski" slapp úr umsátri á Gömlu-Krýsuvík og komst á einn hesta sinna, Brimfaxa, mikinn gæðing.

Tekið af
www.ferlir.is

08.06.2010 16:15

Folöldin í Flagveltu


Nú eru fyrstu tvö fölöldin fædd í Flagveltu hjá Pétri og Birtu og á eitt folald á eftir að koma til viðbótar í sumar. Fyrst kom myndarleg rauðstjörnótt klárhryssa undan Krák frá Blesastöðum og Gusts frá Hóli dóttirinni Gjóstu frá Laufási. Tveim dögum síðar koma svo skrefamikil móálótt fimmgangshryssa undan Sæfara frá Hákoti og Hnátu frá Skarði, en Hnáta er undan Mána frá Ketilsstöðum.

Brimfaxamenn eru hvattir til að senda okkur myndir af fölöldum sínum í sumar og smá upplýsingum um þau og það er aldrei að vita nema að þau eigi eftir að keppa undir merkjum Brimfaxa þegar fram líða stundir

14.05.2010 16:19

Félagsnafnið Brimfaxi



Kosið var um nafn á hestamannafélagi Grindavíkur fimmtudaginn 6 maí sl. og var nokkuð góð mæting á fundinn. Kosningarnar voru skemmtilegar og spennandi og mjótt var á munum. Kosið var í þremur umferðum og vann nafið Brimfaxi á þegar leið á kvöldið. Mjög góð sátt virtist um niðurstöðuna og nafnið, en Brimfaxi er kraftmikið og rammíslenskt gæðingsnafn með góða tenginu við sjóinn og sjómennskuna sem er eitt helsta einkenni Grindavíkur. Til hamingju með nafnið Brimfaxafélagar.

06.04.2010 09:00

Grindvískur gæðingur á ístöli þeirra allra sterkustu

Grindvíski gæðingurinn Helgi frá Stafholti úr ræktun þeirra Palla Jóa og Mundu í Stafholti stóð sig afar vel á ístöltmóti þeirra allra sterkustu um helgina og endaði í 6-8 sæti. Mótið er gríðar sterkt og er einn af hápunktunum í hestaíþróttum á íslandi ár hvert. Helgi frá Stafholti er fyrrum stóðhestur og er undan heiðursverðlaunahestinum Keili frá Miðsitju og gæðinginum Heklu frá Halldórsstöðum. Helgi var sýndur af Snorra Dal.



29.03.2010 10:21

Góð mæting á stofnfund

Hestamannafélag Grindavíkur var stofnað þann 25. mars s.l. og var góð mæting á stofnfund félagsins í Salthúsinu. Mjög létt var yfir fundargestum og ánægja með að sjálfstætt hestamannafélag í Grindavík væri orðið að veruleika. Mjög góð skráning var á stofnfélögum í félagið og verður tekið á móti skráningum sem stofnfélögum í félagið fram á þriðjudagskvöldið þann 30. mars n.k. Skráningar gefa til kynna að stofnfélagar verði tæplega sjötíu talsins.

Á fundinum var ákveðið að efna til samkeppni um nafn að félaginu og félagsmenn mun síðan kjósa um nafn á félaginu í byrjun maí. Einnig var ákveðið árgjald félagsins.

Fyrstu stjórn hestamannafélags Grindavíkur skipa:
Pétur Bragason formaður
Ragnar Eðvarðsson meðstjórnandi
Eyjólfur Magnússon gjaldkeri

Varamenn í stjórn:
Hilmar Knútsson
Birta Ólafsdóttir
Jón Ásgeir Helgason


23.03.2010 16:33

Stofnfundur

23. mars 2010
Stofnfundur hestamannafélags

Hestamenn í Grindavík eru hvattir til þess að mæta á stofnfund hestamannafélags í Grindavík sem haldinn verður í Salthúsinu kl. 19:30 fimmtudaginn 25. mars n.k.

Dagskrá:
1. Lög/Samþykktir félagsins
2. Skráning stofnfélaga
3. Ákvörðun um árgjald
4. Kosning stjórnar

Hestakveðja,

Pétur Bragason
Ragnar Eðvarðsson
Hilmar Knútsson
Jón Ásgeir Helgason
Birta Ólafsdóttir


20.03.2010 20:58

Nýtt hestamannafélag.

20. mars 2010
Í undirbúningi er að stofna öflugt og sjálfstætt hestamannafélag í Grindavík. Búið er m.a. að skrifa drög að samþykktum fyrir félagið, kynna sér málið hjá nýlegum hestamannafélögum ásamt því að ræða við hestamannafélagið Mána um þetta tilvonandi félag sem tæki þá við af Grindavíkurdeild Mána í framtíðinni.

Þetta félag mun efla verulega hestamennskuna innan lögsögu Grindavíkur og eitt fyrsta verk þess verður að eiga og byggja reiðhöll.

Fyrirhugaður stofnfundur verður þann 25. mars n.k. og verður það nánar auglýst síðar.


20.03.2010 20:10

Heimasíða

20. mars 2010

Í dag fór í loftið heimasíða er halda mun utan um og kynna hestamennsku í Grindavík. En þetta frábæra áhugamál, sem er allt í senn, íþrótt, menning og lífstíll, á sennilega hvergi betur heima en í þeirri náttúru og menningu sem Grindavík hefur upp á að bjóða.

Við munum svo bæta inn á síðuna jafnt og þétt og ég hvet ykkur til þess að fylgjast með.

Njóðið vel
Pétur.

Flettingar í dag: 922
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 757
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 657598
Samtals gestir: 67256
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 12:10:19