24.10.2013 20:21

Kynning!

Heil og sæl.
Laugardaginn 26.okt. kl. 10.00 ætlar Sigmar Eðvarðsson að koma til okkar og kynna fyrir okkur efni sem við ætlum að skoða hvort við
getum notað það í gólfið í reiðhöllinni. Um er að ræða viðarkurl sem menn eru að byrja að nota í þessum tilgangi og hefur hann skaffað
þetta efni í Holtsmúla hjá Magga Lár. Við viljum hvetja alla til að láta sjá sig og láta ljós sitt skína, líka þá sem eru bestir í heimi heima hjá sér.
Svo ætlum við að byrja að stúka af salernin og eitthvað fleira.
Sjáumst hress og kát.
Kv.
Herra Hilmar formaður.

18.10.2013 20:50

Hreinsun á morgun laugard. 19 okt. kl. 10:00


Sæl öll.
Við ætlum að klára að þrífa höllina á morgun laugardag. Það er lítið eftir en nauðsynlegt að klára það.
Við ætlum að mæta kl. 10:00 hress og kát, drífa þetta af og spá og spekúlera í leiðinni.
Kær kveðja.
Herra Hilmar formaður.

18.10.2013 10:24

Myndir



Myndir frá hreinsunardeginum eru komnar í myndaalbúmið.

11.10.2013 22:55

Hreinsun nk. sunnudag 13 okt. kl. 10:00



Sælir félagar.
Takk þið sem mættuð á síðasta fund í reiðhöllinni. Það sem var ákveðið þar var að  við reyndum að nýta okkur góða veðrið sem spáð er á sunnudaginn til þess að hreinsa upp allt rusl og hreinsa mold og ryð af höllinni. 
Væri ekki notalegt að mæta kl.10 á sunnudagsmorgunn (13 okt.) og taka til hendinni.
Margar hendur vinna létt verk.
Kv. Formaðurinn.

Annað:
Sigmar Byggingafulltrúi bað mig að koma eftirfarandi skilaboðum til þeirra sem eiga hesthús á svæðinu.
Nú eru að hefjast framkvæmdir á svæðinu og þeir sem eiga dót eða vélar fyrir ofan efstu hesthúsin eru beðnir að fjarlægja það þar sem það verður fyrir framkvæmdunum. Við skulum vera í sambandi við verktakann og vinna með honum við lausn mála.
Einnig verða hesthúsin tengd inná nýju vatnslögnina og þarf þá Þorsteinn að fá upplýsingar um staðsetningu inntaka.
Svo er spurt um hvort ekki eru neinar athugasemdir við lóðamerkingarnar hnitin sem sett voru út fyrir lóðunum.
Við getum fengið annann fund með Sigmari ef menn vilja varðandi það atriði. Verðum í sambandi.
Kær kveðja.
Herra Hilmar formaður

09.10.2013 18:49

Fundur í reiðhöllinni 10. okt. kl. 18:00


Sælt veri fólkið.
Það er formaðurinn sem sendir þessar línur. Tilefnið er reiðhöllin þar sem vinnu við að ljúka húsinu að utan er nú lokið.
Við höfum því ákveðið að boða félagsmenn til fundar í reiðhöllinni á morgun fimmtudag kl. 18 þar sem við förum aðeins yfir málin og ákveðum framhaldið og ekki síst að finna andann í húsinu, sem hlýtur að vera góður.
Vonandi geta sem flestir mætt og komið með góðar tillögur.
Kær kveðja,
Herra Hilmar formaður.

09.10.2013 14:32

Hrafn hjálpar hestum


Heimildarmaður var eitt sinn að flytja lækni og þegar hann fór til baka fór hann austur sanda og yfir kvísl. Þegar hann kom yfir kvíslina var mikið svell og miklir skorningar voru í ísnum. Hestarnir vildu ekki fara yfir og kom þá hrafn fljúgandi utan úr þokunni. Hann settist fyrir framan hestana og hoppaði þar um. Hestarnir fóru á eftir honum og þannig gekk ferðin þangað til að heimildarmaður og hestar voru komnir yfir ísinn. Þá flaug hrafninn burt. Nokkur trú var á hrafninum.
 
Heimild: Þorbjörn Bjarnason
Ritun: 1969

08.10.2013 13:55

Hrossaræktarsamtök Suðurlands



Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands verður 10.okt á Veitngastaðnum Kannslaranum á Hellu og hefst kl 20:00

Dagskrá fundarins eftirfarandi :

1. Kynning á viðburðinum Horse Expo um hana sér Hrafnkell Guðnason.
   Eftir kynningu umræða um þáttöku H.S í umræddum viðburði.
2. Starfshópur H.S. á sviði markaðsmála skilar af.
   Umræða um skýrslu starfshópsins.
3. Vetrardagskrá H.S kynnt.
4. Nýliðið málþing Fagráðs til umræðu.
5. Önnur mál.

08.10.2013 13:30

Hófadynur


Tekið úr texta inngangi Halldórs Péturssonar úr bókinni Hófadynur.
 
;Íslenzki hesturinn má muna tvennar tíðir, þær fyrri, er hann sampíndist þjóðinni í þrengstu og óblíðustu kjörum, þegar allt líf í landi hékk á sömu horriminni. Á seinni árum hefur hesturinn notið ávaxta af batnandi hag, sem þessi öld hefur fært húsbændum hans. Nú þarf hann ekki lengur að bera þungar byrðar ófærar eða illfærar leiðir né heldur draga plóg eða sláttuvél, sem ofbauð kröftum hans. Hann er ekki lengur að jafnaði sundlagður í stórvötn né sveltur heilu hungri og látinn berja gaddinn án allrar miskunnar í hörðum vetrum;
 
:.........en úti um græna haga landsins sjást víða fallegir hópar af stóði. Þar er ennþá margur hagaljómi og margir folaldsmunnar bera mjúka snopuna að kjarngresinu, og ennþá eru hér í landi hestamenn ágætir og unnendur riddaralegra íþrótta, sem miklar mætur hafa á góðum reiðhestum og kunna vel með þá að fara, sem hverja frjálsa stund taka hnakk sinn og hest til að njóta hollustu þeirrar ágætu og göfugu íþróttar, sem reiðmennskan er.;
 
Hófadynur, íslenski hesturinn í ljóði og sögu.
Höf. Halldór Pétursson
Útg. 1966
Endurútg. 2004
 
Um bókina og endurútgáfu:
 

30.09.2013 12:29

Kilja frá Grindavík


Mynd: Belinda Ottósdóttir.

Jakob S. Sigurðsson keppti á Kilju frá Grindavík á opna Íþróttamóti Dreyra í ágúst sl. Jakob og Kilja voru farsæl á mótinu og unnu 1. flokk í tölti með einkunnina 7,83.

Jakob hefur keppt á nokkrum sterkum mótum á Kilju á þessu ári með feykigóðum árangri og oftast í úrslitum á þeim mótum sem þau hafa tekið þátt í.
 
Kilja er köstuð í Grindavík árið 2007 og er því um unga hryssu að ræða sem fær svo glæsilega einkunn í töltkeppni.
 
Kilja er undan Landsmótssigurvegaranum Geisla frá Sælukoti og Kilju frá Norður-Hvammi.

Ræktandi og eigandi Kilju er Hermann Th. Ólafsson.

27.09.2013 15:15

Magnús Máni og Tígull


Magnús Máni Magnússon var ekki í vandræðum með að finna sér leið til að komast á hestbak, þarna er sannkölluð útsjónarsemi hjá litla manninum.
Gæðingurinn Tígull frá Hrafnhólum tók þessu öllu með stakri ró, sem minnir okkur verulega á hversu dýrmætir hestar eins og Tígull eru.
Í myndaalbúminu má sjá myndir af hvernig honum gekk að komast á leiðarenda.

24.09.2013 14:34

Sauðfjársmal


Smal og réttir voru í Grindavík um sl. helgi. Jóhanna Harðardóttir hjá Arctic Horses tók nokkrar myndir sem eru komnar í myndaalbúmið.

20.09.2013 19:18

Tamningarstöð Eyþórs og Skjaldar

Haustið er tími frumtamninga, í þessu youtube myndbandi hér fyrir neðan fara Eyþór og Skjöldur yfir hinar mörgu æfingar sem tamningamenn gera á frumstigi tamninga.
Í myndbandinu er einnig viðtal við mann sem flestir hestamenn í Grindavík ættu vel að þekkja.
emoticon 

18.09.2013 22:05

Virðum gangstéttirnar!



Ábending hefur borist til stjórnar Brimfaxa um hestatað á gangstéttum og gangstígum í Grindavík. Stjórn Brimfaxa vill koma því á framfæri til allra hestamanna að fara ekki á hestunum eða teyma þau á gangstéttum og gangstígum, ef er óumflýjanlegt fyrir hestana að fara yfir gangstéttir, gangstíga eða götur, vinsamlegast farið strax og þrífið upp eftir hrossin ef þau skilja eitthvað eftir sig.
Kveðja,
Stjórn Brimfaxa.

17.09.2013 14:15

Landsamband hestamanna


Af tilefni degi íslenskrar náttúru sem var 16. sept. 2013 kynnir LH sérstaklega kortasjá LH þar sem má finna allar reiðleiðir sem eru á samþykktu aðalskipulagi sveitarfélaga.
 
LH kynnir einnig "Umgengnisreglur hestamanna" og er mælst til þess að hestamenn um land allt fari eftir þeim og hugi í hvívetna að náttúrunni okkar á ferð um landið.
 
Umgengnisreglur hestamanna má sjá hér:
 
Kortasjá/reiðleiðir LH er aðgengileg á heimasíðu LH en hana má sjá hér:

Flettingar í dag: 85
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 2615
Gestir í gær: 221
Samtals flettingar: 551895
Samtals gestir: 59056
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 01:06:30