29.05.2014 17:47

Aðsent

Á 15. fundi stjórnar Landssambands hestamannafélaga þann 26. maí 2014 var ákveðið að fara að áskorun yfirdýralæknis um að banna notkun á mélum með tunguboga og vogarafli í keppni. Ákvörðunin er byggð á rannsóknum Sigríðar Björnsdóttur og Þorvaldar Kristjánssonar sem sýnir að slík mél eru afgerandi áhættuþáttur fyrir áverka á kjálkabeini hjá keppnishestum. Mél teljast vera með tunguboga þegar hæðarmunur frá neðri kanti á endastykki upp í neðri kant á efsta hluta (miðhluta) mélanna er meiri en 0,5 sm. Öll mél með stöngum og/eða keðju teljast mél með vogarafli.

Á 14. fundi sínum ákvað stjórn LH að fá lögmann til að lesa lög sambandsins og í framhaldinu gera minnisblað um hvort stjórn væri heimilt að banna tungubogamél með vogarafli út frá lögum LH, FEIF, FEI og dýraverndarlögum. Aflað var álits Guðjóns Ármannssonar hrl. hjá LEX lögmannsstofu sem komst að þeirri niðurstöðu að stjórn LH væri heimilt að banna framangreindan búnað í íþrótta- og gæðingakeppni hér á landi á vegum LH og FEIF þar sem keppt væri eftir lögum og reglum umræddra samtaka.

Bann þetta tekur þegar gildi, eða frá og með 27.  maí 2014. Stjórn LH mun leggja þessa niðurstöðu sína og þá nýjar upplýsingar ef fram eru komnar, fyrir landsþing LH sem haldið verður á Selfossi dagana 17. - 18. október 2014.

Stjórn LH

Flettingar í dag: 506
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 513
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 476362
Samtals gestir: 48706
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 10:02:57