31.03.2012 14:25

Folaldasýningin

Fyrsta folaldasýning á vegum Brimfaxa var haldin fimmtudaginn 29. mars á Þórkötlustöðum. Hinn landsfrægi ræktunar og hestamaður Gunnar Arnarson kom og dæmdi folöldin fyrir okkur og fræddi okkur um leið. Óhætt er að segja um Gunnar að hann veit hvað hann syngur í þessum efnum og það var gaman að hlusta á hann færa rök fyrir sínum dómum. Ræktendur í Grindavík mega vel við una enda folöldin sem sýnd voru einstaklega falleg upp til hópa og vel alin og snyrtileg. Gunnar talaði mikið um það hvað folöldin væru vel alin og eigendunum til mikls sóma. Brimfaxi bauð uppá súpu sem Láki í Salthúsinu eldaði og Stebbi K. bauð uppá drykkjarföng og færði Gunnari fisk. Takk fyrir það Stefán. Að vanda tóku Stafholtshjónin okkur opnum örmum og lögðu til aðstöðu og helltu uppá kaffi og gáfu verðlaunin, sem var folatollur undir Sæþór stólpagrip sem miklar vonir eru bundnar við. Við þökkum Láka fyrir frábæra súpu og fyrir lánið á hátalarakerfinu. Gaman var að sjá hvað margir komu og fylgdust með þrátt fyrir körfuboltaleik. Sigurvegari kvöldsins var merfolaldið Þrenna frá Syðra-Langholti undan Mídasi frá kaldbak og Glóð frá Miðfelli 5. Eigandi er Sigmundur Jóhannesson frá Syðra-Langholti. Simmi í Syðra er í miklu samstarfi við Stafholtsbúið og hefur verið með folöldin sín í hesthúsinu hjá Palla og Mundu undanfarin ár og hefur mikil samskipti við okkur Grindvíkinga.
Til hamingju Simmi. Það er gaman að segja frá því að þegar við fórum í ræktunarferð til Gunnars að Grænhól í fyrra þá sagði Gunnar að Gári væri svona tuttugu árum á undan öðrum hestum hvað byggingu varðar, og það var ekki laust við það að það kæmi glott á okkur suma við þessi ummæli.
Mídas er undan Gára og flest folöldin á sýningunni hjá okkur voru undan Mídasi. Þar kom það í ljós að hann virðist skila fallegri byggingu til sinna afkvæma sérstaklega fallegri frambyggingu og skrefmiklum gripum. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Takk fyrir notalega kvöldstund öll þið sem aðstoðuðu okkur við þetta og takk fyrir hjálpina.
Herra Hilmar formaður.

Flettingar í dag: 660
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 449
Gestir í gær: 71
Samtals flettingar: 460883
Samtals gestir: 46993
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 18:39:25